Alsír

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alþýðu­lýðveldið Alsír
الجمهورية الجزائرية الديمقراطية الشعبية
Al-Jumhūrīyah al-Jazā’irīyah
ad-Dīmuqrāţīyah ash-Sha’bīyah
Fáni Alsírs Skjaldarmerki Alsírs
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
بالشعب وللشعب (arabíska)
Bylting fólksins fyrir fólkið
Þjóðsöngur:
Kassaman
Staðsetning Alsírs
Höfuðborg Algeirsborg
Opinbert tungumál arabíska, tamazight
Stjórnarfar Forsetaþingræði

Forseti Abdelmadjid Tebboune
Forsætisráðherra Aymen Benabderrahmane
Stofnun
 • undir Tyrkjaveldi 1516 
 • undir Frakklandi 1830 
 • sjálfstæði 5. júlí 1962 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
10. sæti
2.381.741 km²
1,1
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
32. sæti
44.700.000
17,7/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 514,748 millj. dala (43. sæti)
 • Á mann 11.433 dalir (111. sæti)
VÞL (2019) 0.748 (91. sæti)
Gjaldmiðill Dínar
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .dz
Landsnúmer +213

Alsír er land á Magrebsvæðinu í Norður-Afríku. Landið stærsta ríki Afríku og Arabaheimsins og tíunda stærsta land heims. Það á landamæri að Túnis í norðaustri, Líbíu í austri, Níger í suðaustri, Malí, Máritaníu í suðvestri, og Marokkó og Vestur-Sahara í vestri. Alsír á strönd að Miðjarðarhafi í norðri. Loftslag í Alsír er hálfþurrt. Flestir landsmenn búa í frjósömum norðurhlutanum en megnið af suðurhlutanum er í Saharaeyðimörkinni. Íbúar eru rúmar 44 milljónir sem gerir Alsír að 9. fjölmennasta ríki Afríku. Höfuðborgin og stærsta borgin er Algeirsborg við strönd Miðjarðarhafsins.

Alsír hefur verið hluti af fjölmörgum ríkjum, eins og Númidíu, Fönikíu, Rómaveldi, ríki Vandala, Austrómverska ríkinu, ríki Úmajada, Rustamída, Idrisída, Aglabída, Fatímída, Zirída, Hammadída, Almoravída, Zayyanída, Spánverja og Tyrkja. Landið varð að lokum hluti af Nýlenduveldi Frakka áður en það fékk sjálfstæði árið 1962 eftir vopnuð átök. Mikill meirihluti íbúa Alsír eru arabískir Berbar sem aðhyllast íslam og tala arabísku og berbísk mál. Franska er enn notuð sem menntamál og sum staðar í stjórnsýslunni, en alsírsk arabíska er algengasta talmálið í landinu.

Alsír býr við forsetaþingræði. Landið skiptist í 58 sýslur og 1.541 sveitarfélög. Það er stórveldi í Norður-Afríku og miðveldi á heimsvísu. Vísitala um þróun lífsgæða er þar hæst af öllum löndum meginlands Afríku. Hagkerfi Alsír er eitt af þeim stærstu í álfunni og byggist að stórum hluta á útflutningi jarðolíu. Alsír á 16. mestu olíubirgðir heims og 9. stærstu gasbirgðirnar. Ríkisrekna olíufyrirtækið Sonatrach er stærsta fyrirtæki Afríku, og selur mikið magn jarðgass til Evrópu. Her Alsírs er einn af stærstu herjum Afríku og sá best fjármagnaði. Alsír er aðili að Afríkusambandinu, Arababandalaginu, Samtökum olíuframleiðsluríkja og Sameinuðu þjóðunum, og stofnaðili að Magrebbandalaginu.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Nafn landsins er dregið af nafni Algeirsborgar og kemur úr arabísku al-Jazāʾir (الجزائر, „eyjarnar“),[1] sem er stytt útgáfa eldra heitisins Jazāʾir Banī Mazghanna (جزائر بني مزغنة, „eyjar Mazghanna-ættbálksins“),[2][3][4] sem landfræðingar á borð við al-Idrisi notuðu. Heitið vísar til fjögurra eyja sem áður voru úti fyrir ströndinni, en urðu hlutar af meginlandinu árið 1525.

Nafnið er líka ritað الجزائر al-Jazāʾir, الدزاير al-dzāyīr; Lezzayer; ⵍⴻⵣⴰⵢⴻⵔ; لزّاير; Algérie. Opinbert fullt heiti landsins er „Alþýðulýðveldið Alsír“[5] (الجمهورية الجزائرية الديمقراطية الشعبية al-Jumhūriyya al-Jazāʾiriyya ad-Dīmuqrāṭiyya aš-Šaʿbiyya; Tagduda tamegdayt taɣerfant tazzayrit, ⵜⴰⴳⴷⵓⴷⴰ ⵜⴰⵎⴳⴷⴰⵢⵜ ⵜⴰⵖⵔⴼⴰⵏⵜ ⵜⴰⴷⵣⴰⵢⵔⵉⵢⵜ.[6] تڨذوذا تازايريت تاماڨذايت تاغرفانت République algérienne démocratique et populaire, skammstafað RADP).

Saga Alsír[breyta | breyta frumkóða]

Sjáfstæðisbarátta[breyta | breyta frumkóða]

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Áður en Frakkar tóku yfir Alsír var Alsír undir Tyrkjaveldi. Deilur milli Tyrkja og Frakka urðu til þess að Frakkar réðust inn í Alsír árið 1830. Eftir mörg ár náðu Frakkar að brjóta mótspyrnu Alsírmanna niður og Alsír varð hluti að Frakklandi árið 1848.

Frakkar og fleiri Evrópubúar urðu gríðarlega hrifnir af landinu og margir settust þar að. Alsír var skilgreint sem óaðskiljanlegur hluti af Frakklandi.

Eftir seinni heimstyrjöld fengu Alsíringar ásamt öðrum nýlendum von um sjálfstæði og fengu flestar nýlendur Frakka og Breta sjálfstæði hver af annari. En hvað Alsír varðaði kom það ekki til greina af hálfu Frakka og því risu Alsíringar af afrískum uppruna upp.

Stríðið 1954-1962[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem franski herinn var mjög öflugur og talinn vera einn af sterkustu í heimi var eina von Alsíringa skæruhernaður og hryðjuverk.

Þann 1. nóvember 1954 réðust skæruliðar úr alsírsku Þjóðfrelsisfylkingunni, FLN, á franska herinn í sprengjutilræði sem kostaði mörg mannslíf. Árið 1956 hóf FLN mikla herferð, sem var kölluð orrustan um Algeirsborg. Sú herferð var mjög blóðug og var mikið um hryðjuverk, sprengjutilræði og árásir úr launsátri.

Þessi skæruhernaður og hryðjuverk varð til þess að franska samfélagið í Alsír (fr. pieds-noirs, eða svartfætlingar) var orðið mjög óttaslegið. Frakkar gerðu leiðtoga sinn úr seinni heimsstyrjöld, Charles de Gaulle, að forseta árið 1958 í þeirri von að hann gæti stöðvað uppreisnina. Eftir nokkurn tíma áttaði hann sig á því að stríðið í Alsír væri vonlaust. Það reitti pieds-noirs til reiði og neituðu þeir síðar að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Alsír.

Þann 1. júlí 1962 var boðað til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Alsír. Meirihluti fólks kaus með sjálfstæði og varð Alsír sjálfstætt ríki þann 3. júlí sama ár.

Alsírskir sagnfræðingar telja að um 1,5 milljón Alsíringa hafi fallið í þessu stríði á meðan franskir sagnfræðingar telja að um 400.000 íbúar beggja ríkjanna hafi fallið.

Þjóðflokkaátök á 20. öld[breyta | breyta frumkóða]

Strax við stofnun sjálfstæðs alsírsks ríkis 1962 var tekið fram í raunverulegri stjórnarskrá landsins að það sé arabískt og íslamskt. Hocine Ait Ahmed, berbísk stríðshetja úr Alsírstríðinu, reis upp og stofnaði Fylkingu hinna sósíalísku afla (fr. Front des forces socialistes; FFS). Með flokki sínum leiddi hann síðan 10 mánaða uppreisn gegn stjórn Ben Bella forseta. Ástæðan fyrir uppreisninni var sú sama og hefur ýtt undir margar aðrar uppreisnir Berba í Alsír, nefnilega tilburðir stjórnvalda til að arabavæða alsírsku þjóðina. Arabavæðingin hófst þó ekki af fullum krafti fyrr en á 8. áratugnum og fólst meðal annars í því að stöðluð arabíska varð ein opinbert tungumál Alsír í stað frönsku áður og meðvitað átak var gert í því að útrýma tungu og menningu Berba úr alsírska menntakerfinu.

Barátta alsírskra Berba fyrir viðurkenningu á máli sínu og menningu hefur þróast mest hjá þeim sem fóru í útlegð eða fluttust til Frakklands fyrr á 20. öldinni. Þar unnu þeir meðal annars að stöðlun tungumáls síns, breiddu út hugmyndina um berbíska þjóð í Frakklandi og unnu að útgáfu á heimsbókmenntum og kennslubókum á berbísku. Því má segja að Berbar hafi svarað arabavæðingu í Alsír með sinni eigin berbavæðingu.

Vorið 1980 sauð upp úr milli berbíska minnihlutans í Kabýlíu og stjórnvalda vegna viðleitni stjórnvalda til að arabískuvæða Alsír. Eftir miklar óeirðir og allsherjarverkfall í héraðinu varð útkoman sú að þjóðernishyggja Berba hafði fest sig í sessi sem stjórnmálalegt afl. Í kjölfarið spruttu upp fjölmörg berbísk menningarfélög í Frakklandi og ber þar helst að nefna Menningarhreyfingu Berba (fr. Mouvement Culturel Berbère; MCB) sem stofnuð var á 9. áratug síðustu aldar og Heimsþing Amazigh (fr. Congrès Mondial Amazigh; CMA), stofnað á 10. áratugnum. Bæði þessi félög eru enn starfandi í dag og halda meðal annars úti heimasíðum.

Öllu alvarlegri átök áttu sér stað vorið 2001 eftir að ungur Berbi lét lífið í haldi lögreglu. Óeirðirnar og allsherjarverkföllin sem brjótast út í kjölfarið eru einfaldlega kölluð „svarta vorið“ og hefur verið lýst sem intifada Berba í Kabýlíu. Þó svo að ofbeldið sem tengt er við „svarta vorið“ sé aðallega bundið við Kabýlíu hefur því verið haldið fram að „neyðin sem kom fram hjá hinum ungu mótmælendum [hafi ekki verið] einstök reiði kabylíska minnihlutans, heldur reiði heillar kynslóðar Alsíringa sem höfðu alist upp í Alsír þar sem dýrðir þjóðfrelsisstríðsins voru fjarlæg minning, hverra eina föðurlandshyggja ákvarðaðist af félags- og efnahagslegri útskúfun og ofbeldi borgarastríðs.“

Átök Frakka og Alsíringa 1954-1962 hafi verið bæði sjálfstæðisátök og þjóðernisátök, þar sem Alsíringar (sem skiptast í Araba og Berba) tóku saman höndum gegn frönskum yfirráðum. En jafnvel þó svo að franskir landnámssinnar (fr. Les colons) hafi barist jafnt gegn bæði Alsíringum og frönskum yfirvöldum, sem þeir töldu of hógvær, er ekki hægt að líta á þá sem sérstakan þjóðernishóp þar sem þeir skildu sig frá frönsku yfirvöldunum aðeins að stjórnmálalegu leyti. Þar sem markmið Berba er ekki að segja sig úr lögum við Alsír og stofna sjálfstætt ríki er óhætt að halda því fram að einn meginmunur átakanna '54-'62 og síðari uppreisna Berba sé sá að í þeim fyrrnefndu var barist fyrir sjálfstæði þjóðar en í hinum til að viðhalda menningarlegum séreinkennum.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Sahara, Hoggarfjöll og Atlasfjöll mynda Alsír.
Alsíreyðimörkin er yfir 90% af flatarmáli Alsírs.

Síðan Súdan var skipt í tvennt árið 2011 hefur Alsír verið stærsta land Afríku og stærst af löndunum við Miðjarðarhafið. Suðurhluti Alsír nær yfir stóran hluta af Saharaeyðimörkinni. Í norðri mynda fjallgarðarnir Tell Atlas og Sahara-Atlasfjöll, tvo samsíða fjallgarða. Milli þeirra eru stórar sléttur og hálendi. Fjallgarðarnir renna saman í austurhluta landsins. Aures-fjöll og Tébessa-fjöll eru í norðausturhluta Alsír og mynda landamærin við Túnis. Hæsti tindur landsins er Tahatfjall, 3.003 metrar á hæð.

Alsír er að mestu milli 19. og 37. breiddargráðu norður og 9. og 12. lengdargráðu austur. Strandlengjan er að mestu hæðótt, og fjalllend á kafla, og þar eru nokkrar náttúrulegar hafnir. Svæðið frá ströndinni að Tell Atlas er frjósamt ræktarland. Sunnan við fjallgarðinn er gresja sem endar við Sahara-Atlasfjöll og sunnan við þau er Saharaeyðimörkin.[7]

Hoggarfjöll (arabíska: جبال هقار) eru hálendi í miðri Sahara. Þau eru um 1.500 km sunnan við Algeirsborg og rétt austan við Tamanghasset. Helstu borgir landsins eru Algeirsborg, Oran, Kasantina og Annaba.[7]

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Abdelmadjid Tebboune, forseti Alsírs frá 2019.

Stjórn Alsírs er að litlu leyti í höndum kjörinna fulltrúa. Þess í stað fer hópur skipaðra „décideurs“ („ákvarðara“), sem er kallaður „le pouvoir“ („valdið“), með stjórn landsins. Þessi hópur ræður því að mestu hver verður forseti.[8][9] Valdamesti maður landsins var áður líklega Mohamed Mediène, yfirmaður leyniþjónustu hersins, þar til honum var steypt af stóli í mótmælunum í Alsír 2019-2020.[10] Síðustu ár hafa margir af valdamestu herforingjum landsins látist eða lent í fangelsi. Eftir andlát Larbi Belkheir, skipaði fyrrverandi forseti landsins, Abdelaziz Bouteflika, sína trúnaðarmenn í lykilstöður, sérstaklega hjá ríkisfyrirtækinu Sonatrach, og gerði breytingar á stjórnarskránni svo hann gæti boðið sig fram til endurkjörs án takmarkana. Hann sagði af sér í kjölfar mótmælanna[11] og lést aðeins tveimur árum síðar.

Forseti Alsírs er þjóðhöfðingi landsins og er kjörinn til fimm ára í senn. Áður mátti forseti aðeins sitja í tvö kjörtímabil, en með stjórnarskrárbreytingu sem þingið samþykkti 11. nóvember 2008 var þessari takmörkun aflétt.[12] Síðustu forsetakosningar áttu að fara fram í apríl 2019 en í febrúar brutust út víðtæk mótmæli gegn þeirri ákvörðun forsetans að bjóða sig fram, sem leiddu til afsagnar hans 3. apríl.[13] Óháði frambjóðandinn Abdelmadjid Tebboune var kosinn forseti þegar kosningarnar fóru loks fram 12. desember. Mótmælendur neituðu þó að viðurkenna Tebboune sem forseta og vildu umfangsmiklar breytingar á stjórnkerfi landsins.[14] Í Alsír er almennur kosningaréttur frá 18 ára aldri. Forsetinn er yfirmaður Alsírshers, ráðherraráðsins og öryggisráðsins. Hann skipar forsætisráðherra Alsírs sem leiðir ríkisstjórnina.[15]

Þing Alsírs.

Þing Alsírs situr í tveimur deildum: neðri deildin Fulltrúaþing Alsírs, er með 462 þingmenn sem eru kosnir til fimm ára í senn; en efri deildin, Þjóðarráð Alsírs, er með 144 þingmenn sem sitja í sex ár í senn, þar af 96 kjörna af héraðsþingum og 48 sem forsetinn skipar.[16] Samkvæmt Stjórnarskrá Alsírs má ekki stofna til stjórnmálahreyfinga sem „byggjast á mismunnun vegna trúarbragða, tungumáls, kynþátta, kyns, atvinnu eða búsetu“. Auk þess má ekki byggja kosningabaráttu á þessum grunni.[17]

Síðustu þingkosningar voru haldnar í landinu árið 2017. Þá missti Þjóðfrelsisfylkingin 44 sæti en var áfram stærsti flokkurinn með 164 sæti. Baráttuflokkur fyrir lýðræði (sem herinn studdi) fékk 100 þingsæti, og Friðarhreyfingin (sem tengist Múslimska bræðralaginu) fékk 33.[18]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Alsír skiptist í 58 sýslur (wilāyat), 553 umdæmi (dawaïr) og 1.541 sveitarfélög (baladiyat). Sýslur, umdæmi og sveitarfélög eru oftast nefnd eftir stærsta þéttbýlisstaðnum.

# Wilaya Stærð (km2) Íbúar map # Wilaya Stærð (km2) Íbúar
1 Adrar 402.197 439.700
30 Ouargla 211.980 552.539
2 Chlef 4.975 1.013.718 31 Oran 2.114 1.584.607
3 Laghouat 25.057 477.328 32 El Bayadh 78.870 262.187
4 Oum El Bouaghi 6.768 644.364 33 Illizi 285.000 54.490
5 Batna 12.192 1.128.030 34 Bordj Bou Arréridj 4.115 634.396
6 Béjaïa 3.268 915.835 35 Boumerdes 1.591 795.019
7 Biskra 20.986 730.262 36 El Taref 3.339 411.783
8 Béchar 161.400 274.866 37 Tindouf 58.193 159.000
9 Blida 1.696 1.009.892 38 Tissemsilt 3.152 296.366
10 Bouïra 4.439 694.750 39 El Oued 54.573 673.934
11 Tamanrasset 556.200 198.691 40 Khenchela 9.811 384.268
12 Tébessa 14.227 657.227 41 Souk Ahras 4.541 440.299
13 Tlemcen 9.061 945.525 42 Tipaza 2.166 617.661
14 Tiaret 20.673 842.060 43 Mila 9.375 768.419
15 Tizi Ouzou 3.568 1.119.646 44 Ain Defla 4.897 771.890
16 Algiers 273 2.947.461 45 Naâma 29.950 209.470
17 Djelfa 66.415 1.223.223 46 Ain Timouchent 2.376 384.565
18 Jijel 2.577 634.412 47 Ghardaia 86.105 375.988
19 Sétif 6.504 1.496.150 48 Relizane 4.870 733.060
20 Saïda 6.764 328.685 49 El M'Ghair 8.835 162.267
21 Skikda 4.026 904.195 50 El Menia 62.215 57.276
22 Sidi Bel Abbès 9.150 603.369 51 Ouled Djellal 11.410 174.219
23 Annaba 1.439 640.050 52 Bordj Baji Mokhtar 120.026 16.437
24 Guelma 4.101 482.261 53 Béni Abbès 101.350 50.163
25 Constantine 2.187 943.112 54 Timimoun 65.203 122.019
26 Médéa 8.866 830.943 55 Touggourt 17.428 247.221
27 Mostaganem 2.269 746.947 56 Djanet 86.185 17.618
28 M'Sila 18.718 991.846 57 In Salah 131.220 50.392
29 Mascara 5.941 780.959 58 In Guezzam 88.126 11.202

Efnahagslíf[breyta | breyta frumkóða]

Hlutfallsleg skipting útflutningsgreina árið 2019.

Gjaldmiðill Alsírs er alsírskur dínar (DZD). Efnahagslíf landsins er að miklu leyti í höndum ríkisins, sem er arfleifð frá sósíalískum stjórnarháttum sem teknir voru upp eftir að landið fékk sjálfstæði. Síðustu ár hefur stjórn landsins stöðvað einkavæðingu ríkisfyrirtækja og takmarkað innflutning og erlenda fjárfestingu.[19] Þessum hömlum hefur verið aflétt að litlu leyti síðustu ár.

Alsír hefur átt í erfiðleikum með að þróa annan iðnað en olíuiðnað, að hluta vegna kostnaðar og skriffinsku. Tilraunir alsírska ríkisins til að laða að erlenda og innlenda fjárfestingu utan orkugeirans hafa ekki náð að draga úr atvinnuleysi ungs fólks eða takast á við húsnæðisskort.[19] Landið glímir við margar áskoranir í efnahagsmálum, eins og þörf fyrir fjölbreyttara atvinnulíf, öflugri umbætur í stjórnmálum, efnahags- og viðskiptalífi, og ójöfnuð milli landsvæða.[20]

Mótmæli vegna stöðu efnahagsmála í febrúar og mars 2011 fengu stjórn Alsírs til að leggja 23 milljarða dollara í styrki og afturkvæmar launagreiðslur og hækkun bóta. Ríkistútgjöld hafa aukist um 27% á ári síðustu 5 ár.

Þökk sé miklum birgðum jarðefnaeldsneytis á Alsír 173 milljarða gjaldeyrisforða og stóran olíusjóð. Auk þess eru erlendar skuldir landsins mjög lágar, eða um 2% af vergri landsframleiðslu.[19] Efnahagslíf Alsírs er enn mjög háð tekjum af jarðefnaeldsneyti og vöxtur ríkistútgjalda veldur því að efnahagur landsins er viðkvæmur fyrir lækkun eldsneytisverðs á heimsmarkaði.[21]

Alsír er ekki aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, þrátt fyrir áralangar samningaviðræður.[22]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. LLC, Forbidden Fruits (30. janúar 2013). iAfrica – Ancient History UNTOLD (enska). Forbidden Fruit Books LLC.
  2. Bazina, Abdullah Salem (2010). The spread of Islam in Sub-Saharan in Africa (arabíska). Al Manhal. ISBN 978-9796500024. Afrit af uppruna á 16. desember 2018. Sótt 25. nóvember 2018.
  3. al-Idrisi, Muhammad (12th century) Nuzhat al-Mushtaq
  4. Abderahman, Abderrahman (1377). History of Ibn Khaldun – Volume 6.
  5. Proclamación de la República argelina, Journal officiel de la republique algerienne, 1st year, 1st issue, 1962, páge 5.
  6. „La standardisation de la transcription n'est pas tranchée : Quelle graphie pour tamazight ?“. El Watan (franska). 22 Apr 2020. Afrit af upprunalegu geymt þann 14 mars 2021. Sótt 14 Mar 2021.
  7. 7,0 7,1 Metz, Helen Chapin. „Algeria : a country study“. United States Library of Congress. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. janúar 2013. Sótt 18. maí 2013.
  8. „What's happening in Algeria… is it the "Arab spring"? (فراس صليبا)“. Lebanese Forces Official Website (bandarísk enska). 12. apríl 2019. Sótt 12. júlí 2021.
  9. „Algeria – Country Profile – Nations Online Project“. www.nationsonline.org. Sótt 12. júlí 2021.
  10. „Still waiting for real democracy“. The Economist. 12. maí 2012. Afrit af uppruna á 3. janúar 2013. Sótt 16. janúar 2013.
  11. „The president and the police“. The Economist. 4. maí 2010. Afrit af uppruna á 4. janúar 2013. Sótt 16. janúar 2013.
  12. „Algeria Deputies Scrap Term Limit“. BBC News. 12. nóvember 2008. Afrit af uppruna á 14. nóvember 2008. Sótt 24. nóvember 2008.
  13. Michaelson, Ruth (3. apríl 2019). „Algeria's president Abdelaziz Bouteflika resigns after 20 years“ – gegnum www.theguardian.com.
  14. „Algeria election: Fresh protests as Tebboune replaces Bouteflika“. BBC News (bresk enska). 13. desember 2019. Sótt 10. febrúar 2021.
  15. Articles: 85, 87, 77, 78 and 79 of the Algerian constitution Algerian government. „Constitution“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. apríl 2012. Sótt 25. september 2011.
  16. „Algeria“. Freedom in the World 2013. Freedom House. Afrit af uppruna á 23. mars 2013. Sótt 8. mars 2013.
  17. Article 42 of the Algerian constitution – Algerian Government. „Algerian constitution الحـقــوق والحــرّيـات“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. september 2012. Sótt 25. september 2011.
  18. „IPU PARLINE database: ALGERIA (Al-Majlis Al-Chaabi Al-Watani), Full text“. archive.ipu.org. Sótt 10. febrúar 2021.
  19. 19,0 19,1 19,2 >„The World Factbook – Algeria“. Central Intelligence Agency. 4. desember 2013. Sótt 24. desember 2013.
  20. „Algeria“. African Economic Outlook. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. mars 2013. Sótt 6. janúar 2013.
  21. „Algeria: 2011 Article IV Consultation“ (PDF). IMF. Afrit (PDF) af uppruna á 11. mars 2014. Sótt 6. janúar 2013.
  22. „Doing Business in Algeria“. Embassy of the United States Algiers, Algeria. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. desember 2012.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Illugi Jökulsson. (2011, júlí). Villimannlegu stríði lýkur í Alsír. Pressan.is. Sótt 3. maí 2018 af http://vefir.pressan.is/timansras/2011/07/03/4506/[óvirkur tengill]