User:Io usurped/Ýmislegt/Stephan G. Stephansson/Á ferð og flugi

From Wikipedia, the free encyclopedia

XVIII
„SVO FYRIRDÆMI ÉG ÞIG EKKI HELDUR“

Og það var nú frá liðin tveggja ára tíð,
      af tilburðum sárlítið geymt,
og Ragnheiðar ævi og endalok var
      nú öllum sem veðráttan gleymt. –
Í þorpinu sama og samfylgdarlaus
      eitt sumarkvöld staddur ég var.
– Ég glöggt mundi húsin og göturnar enn,
      en gleymt hafði mönnunum þar.
Mér hugkvæmdist – eflaust af óþreyju samt,
      þó að því ei stór væru brögð –
að ganga út í reitinn inn rólega þann,
      þar Ragnheiður síðast var lögð.
– Til framandi landa ég bróðurhug ber,
      þar brestur á viðkvæmnin ein,
en ættjarðarböndum mig grípur hver grund,
      sem grær kringum Íslendings bein.
Ég skil, hví vort heimaland hjartfólgnast er:
      öll höppin og ólánið það,
sem ættkvísl þín beið, rifjar upp fyrir þér
      hver árhvammur, fjallströnd og vað.
Og það er sem holtin sjálf hleypi í mann þrótt,
      þar hreystiraun einhver var drýgð,
og svo er sem mold sú sé manni þó skyld,
      sem mæðrum og feðrum er vígð.
– En legstaðinn fann ég – og varðaðan vel,
      þó var samt ei grafskriftin rétt,
því „Sally O'Hara“ úr letri ég las
      í línu, sem efst var þar sett,
í næstu, hvern dag það í desember var,
      sem dó hún, og ártalið þá,
þar neðan við „Daisy“ – svo fólk gæti fræðst,
      hvers „forlag“ um kostnaðinn sá.